Skip to main content

Sjálfsstjórn

Fjórar leiðir til að takast á við daglegt líf þrátt fyrir flogaveiki. Til eru ýmsar aðferðir og leiðir sem geta hjálpað þér við að takast á við daglegt líf. Hér verður einungis fjallað um gott sjálfstraust, sjálfsþekkingu, sjálfsvitund og sjálfsábyrgð. Þegar við þurfum að takast á við daglegt líf með öllu sem því fylgir ásamt því að glíma við langvinnan sjúkdóm, sem hefur margskonar einkenni sem erfitt er að hafa stjórn á, eru þessi atriði sérstaklega mikilvæg.

1. Sjálfstraust

Sjálfstraust þitt hefur áhrif á vilja þinn til sjálfstjórnunar. Þú ert með flogaveiki og stundum getur hún valdið vandamálum. Ekki nota það sem afsökun að vera með flogaveiki s.s. af því að ég er með flogaveiki er ég ekki forstjóri, frægur leikari og svo framvegis. Vandamál sem koma upp í lífi þínu eru ekki aðalatriðin heldur hvernig þú meðhöndlar þau og nærð að vinna úr þeim. Reyndu að hugsa um jákvæðu atriðin og einbeittu þér að því sem þú getur gert en ekki því sem þú getur ekki gert. Að hafa ekki bílpróf þarf ekki að þýða heimsendi það hefur ýmsa kosti að þurfa ekki að reka bíl s.s. meiri líkamsþjálfun, að ekki sé nú talað um peningana sem sparast. Prófaðu að gera lista yfir neikvæðar hugsanir og finndu síðan eitthvað jákvætt til að setja á móti. Einnig er gott að setja sér markmið og ákvarða hvaða leið á að fara til að ná þeim.

2. Sjálfsþekking

Aflaðu þér góðrar þekkingar á einkennum flogaveikinnar og hafðu skilning á því hvernig hún lýsir sér hjá þér. Slíkt auðveldar þér að læra að lifa með flogaveikinni og dregur úr kvíða og streitu. Þekktu vel einkenni þín og hvernig best er að tryggja eigið heilbrigði. Ef þú ert í vafa um einhverja þætti flogaveikinnar hafðu þá samband við lækni þinn eða LAUF. Að deila reynslu sinni með öðrum sem þekkja hvernig er að lifa með flogaveiki er ein leið til þess að öðlast meiri þekkingu og þú upplifir þig ekki eins einangraðan.

3. Sjálfsvitund

Þitt viðhorf er mikilvægt til að byggja upp jákvæðni gagnvart fólki með flogaveiki og það hefur áhrif á sjálfsvitund þína. Fyrst og fremst ert þú sjálfstæð manneskja, með eigin stærð, lögun, lit, aldur, þekkingu, hæfni og metnað, með flogaveiki. Hafðu í huga að flogaveiki er það sem þú ert með en EKKI það sem þú ert. Vitneskjan um að þú ert með flogaveiki getur breytt hugsunarhætti þínum, tilfinningum og hegðun. Á sama hátt getur hugsunarháttur þinn, tilfinningar og hegðun breytt flogaveiki þinni. Algengt er að fólk með flogaveiki upplifi það að tilfinningar þess og geðshræringar hafi áhrif á það hversu oft það fær flog. Því er nauðsynlegt fyrir fólk með flogaveiki að temja sér jákvæðan hugsunarhátt og þekkja vel tilfinningar sínar, það getur í raun stuðlað að fækkun floga.

4. Sjálfsábyrgð

Líf með langvinnan sjúkdóm krefst mikillar ábyrgðar. Það er ýmislegt sem þú þarft að læra og sem þú þarft að takast á við til að tryggja eigið heilbrigði. Fyrir þig er mikilægt að:

  • Taka lyfin samkvæmt tilmælum læknis og þekkja verkun þeirra.
  • Læra að þekkja hvað geti hugsanlega kveikt flog hjá þér og reyndu að aðlaga líf þitt þessum áhættuþáttum. Streita, svefnleysi, þreyta og áfengisneysla eru nokkrir áhættuþættir. Þetta þarf alls ekki að þýða að líf þitt verði leiðinlegt.
  • Kynna sér vel hvaða vinna og tómstundir henta og hvað er áhættusamt að gera.
  • Þekkja reglurnar sem gilda um akstur vélknúinna ökutækja. Akstur er hættulegur þeim, sem fá fyrirvaralaus flog. Hættu ekki mannslífum hvorki þínu né annarra.