Rannsókn

Athyglisbrestur, ofvirkni og flog, algengi og tengsl meðal íslenskra barna

Pétur Lúðvígsson Barnaspítala Hringsins, Dale Hesdorffer Columbia University NY, Elías Ólafsson Taugalækningadeild LHS, Ólafur Kjartansson Röntgendeild LHS og WA Hauser Columbia University NY.

Inngangur

Athyglisbrestur (“Attention deficit disorder”; ADD) og ofvirkni (“Hyperactivity Disorder; HD) eða hvorttveggja (“Attention Deficit Hyperactivity Disorder; ADHD) eru algeng einkenni hjá börnum, einkum drengjum. Algengið er meira hjá börnum með flogaveiki en meðal barna almennt. Hjá flogaveikum er talið að um beina afleiðingu floganna eða lyfjameðferðarinnar sé að ræða, þótt ekki liggi neinar rannsóknir því til grundvallar. Hluti rannsóknar okkar á algengi og áhættuþáttum floga og flogaveiki á Íslandi beindist að því að kanna algengi og tengsl floga og athyglisbrests og ofvirkni meðal íslenskra barna.

Aðferðir

Nánasti aðstandandi barna á Íslandi á aldrinum 3-16 ára, sem greindust með fyrsta flog á 39 mánaða tímabili frá 1. desember 1995 og nánasti aðstandandi tveggja viðmiðunareinstaklinga úr þjóðskrá af sama kyni sem fæddust sama eða næsta dag, svöruðu stöðluðum spurningalista (DISC) í síma um athyglisbrest og ofvirkni skv. skilgreiningu DSM IV. Spurt var eins fljótt og auðið var eftir fyrsta flog.

Niðurstöður

Algengi athyglisbrests (ADD), ofvirkni (HD) og athyglisbrests með ofvirkni (ADHD) var 7%, 6% og 3% hjá börnum við fyrsta flog, en 2%, 3% og 1% hjá viðmiðunarhópnum. Börn með stakflog eða flogaveiki reyndust 2,9 sinnum oftar hafa sögu um athyglisbrest með eða án ofvirkni en viðmiðunarhópurinn (95% CI=1.3-6.1). Tengsl sáust einnig við athyglisbrest eingöngu (OR:4.3, 95% CI=1.3-15) og við athyglisbrest með ofvirkni (OR=3.7; 95% CI=0.59-23), en ekki við ofvirkni eingöngu (OR=1.8; 95% CI=0.57-5.7).

Ályktun

Athyglisbrestur með eða án ofvirkni er oftar fyrir hendi hjá börnum við fyrsta flogakast en hjá viðmiðunarhópi, sem bendir til sameiginlegrar orsakar. Tengslin eru bundin við athyglisbrest og finnast ekki hjá börnum með ofvirkni eingöngu.