Helstu gerðir floga

Til eru yfir 20 tegundir floga sem lýsa sér á marga mismunandi vegu. Sumir fá aðeins eina tegund floga en það er alls ekki óvenjulegt að fá tvær eða fleiri tegundir. Talað er um tvo aðalflokka: Annars vegar flogaveiki með staðbundin upptök og hins vegar flogaveiki þar sem truflun verður um allan heilann, altæk flog. Algengustu staðbundnu flogin eiga upptök sín í gagnaugalappa heilans. Þeim er skipt í einföld staðbundin flog þar sem meðvitund raskast ekki, fjölþætt staðbundin flog þar sem meðvitund raskast og flog sem breiðast út og verða altæk flog. Altæk flog eru talin um 40% allra floga en staðbundin flog um 60%. Þar af eru fjölþætt staðbundin flog u.þ.b. 34%. Flogaveiki er ýmist sjúkdómsvakin þ.e.a.s. flogaveiki með vefræna orsök sem tengjast hinum undirliggjandi sjúkdómi eða sjálfvakin þ.e.a.s. orsökin óþekkt en tengist líklega erfðaþáttum. Algengustu gerðir altækra floga eru krampaflog og störuflog. Staðbundin flog hafa áhrif á hreyfingar, skynjanir, dultaugakerfið (öndun, hjartslátt, meltingu o.s.frv.) og meðvitund. Sumum finnst þeir skynja fyrirboða, (t.d. undarlegt bragð, lykt eða hljóð). Þessir fyrirboðar gefa vísbendingu um það hvar í heilanum flogin eiga upptök sín. Fyrirboðinn getur verið gagnleg viðvörun til að bregðast við flogi eða koma í veg fyrir það.

Altæk flog frá upphafi; krampaflog, störuflog, fallflog og kippaflog

Krampaflog

Sá sem fær krampaflog missir meðvitund, dettur, blánar jafnvel í framan og taktfastir kippir eða krampar fara um líkamann. Oft sést froða í munnvikum sem stundum er blóðlituð ef tunga eða gómur særist. Í byrjun krampans getur heyrst hávært óp sem stafar af því að kröftugur vöðvasamdráttur þrýstir lofti úr lungum. Af sömu ástæðu getur þvagblaðra og ristill tæmst. Þegar flogið er gengið yfir (það gerist yfirleitt innan fárra mínútna), kemst viðkomandi aftur til meðvitundar og eftir hvíld er hann oftast fær um að hverfa aftur til fyrri iðju. Störuflog,

Þessi gerð floga hefur einnig áhrif á stóran hluta heilans. Þau valda stuttu rænuleysi oftast nokkrar sekúndur. Þau lýsa sér þannig að viðkomandi missir skyndilega meðvitund án þess að detta. Starir fram fyrir sig, sjáöldur víkka, eitt augnablik og heldur síðan áfram þar sem frá var horfið án þess að átta sig á að nokkuð hafi gerst. Stundum sjást kippir í andliti eða útlimum. Köstin geta komið mörgum sinnum á dag og geta auðveldlega farið fram hjá aðstandendum og kennurum. Stundum er talið að um dagdrauma eða vísvitandi einbeitingarleysi sé að ræða. Þessi gerð floga hefst nær alltaf fyrir 15 ára aldur og hættir fyrir 20 ára aldur í um 80% tilfella. Lyfjameðferð er mikilvæg til að hafa hemil á flogunum og til að hindra hugsanlegar aðrar gerðir floga.

Fallflog

Sá sem fær fallflog fellur fyrirvaralaust vegna þess að skyndilega tapast vöðvastyrkur, allur líkaminn verður slappur, einstaklingurinn missir meðvitund og getur fallið illa og meitt sig.

Kippaflog

Skyndilegir útlimakippir, meðvitund tapast ekki alltaf. Slík flog geta komið mörg í röð og yfirleitt dettur viðkomandi ekki.

Staðbundin flog; ráðvilluflog og hreyfi- og skynflog

Ráðvilluflog

Í ráðvilluflogi tapast meðvitund, annað hvort að hluta eða alveg. Oft fylgir starandi augnaráð, munnhreyfingar og síðan ósjálfráð hegðun. Það fylgja engir vöðvakrampar, en viðkomandi virðist í draumkenndu ástandi og sýnir engin viðbrögð þegar yrt er á hann. Hegðun hans er klaufaleg og beinist ekki að neinu sérstöku. Hann getur farið að fitla við fötin sín eða hluti í kringum sig og jafnvel afklæðst. Hann getur hlaupið um og virst hræddur. Sé reynt að hindra hann eða halda honum föstum getur hann brugðist við með ofsa. Þegar hegðunarmynstur er mótað eru flogin oftast eins í hvert skipti. Flogið varir í nokkrar mínútur en einstaklingurinn getur verið ringlaður í langan tíma á eftir. Hann man yfirleitt ekki hvað gerist meðan flogið stóð yfir eða hann hefur þokukenndar minningar um það. Einstaklingur í ráðvilluflogi getur virst drukkinn eða undir áhrifum lyfja.

Hreyfi- og skynflog

Önnur tegund staðbundina floga getur lýst sér sem afbrigðileg hreyfing á afmörkuðu svæði líkamans. Þessi flog verða vegna þess að trufluðu rafboðin eiga sér upptök í þeim hluta heilans sem stjórnar viðkomandi vöðvum. Annað afbrigðið, þegar truflunin á sér stað í sjón- og heyrnarstöðvum heilans, veldur því að viðkomandi heyrir hljóð eða sér hluti sem eru í raun ekki til staðar. Einnig gæti hann fundið fyrir óþægindum í maga, eða fengið ákveðna tilfinningu sem vekur ótta eða fyrirboða. Þessi sérkennilega tilfinning sem kemur rétt fyrir flog er kölluð ára eða aðkenning.

HAFÐU Í HUGA:

  • Að 4-10 af hverjum 1000 eru með flogaveiki
  • Að allir geta fengið flogaveiki hvenær sem er
  • Að skilgreiningin á flogaveiki er mjög víðtæk og nær jafnt til einstaklinga sem flogum er haldið í skefjum hjá og þeirra sem fá óviðráðanleg, tíð, alvarleg og langvinn krampaflog
  • Að stundum fylgja flogin föstu mynstri en þau geta einnig verið algjörlega óútreiknanleg
  • Að sumir finna fyrir aðkenningu áður en þeir fá flog
  • Að flest flog ganga fljótt yfir og hjá mörgum er auðvelt að hafa stjórn á þeim
  • Að einkenni floga eru breytileg frá einum einstaklingi til annars
  • Að flogaveiki er heilsufarsástand sem krefst skilnings og viðurkenningar.