Aldraðir

Með aldrinum verða óneitanlega ýmsar breytingar á starfsemi líkamans. Snerpa og samhæfing minnkar og getur það aukið hættu á ýmsum meiðslum.
Æðar líkamans breytast líka sem getur leitt til ýmissa áfalla og sjúkdóma. Flogaveiki meðal aldraðra er að mati margra vanmetinn og dulinn vandi.
Fólk sem komið er yfir miðjan aldur er annar fjölmennasti hópurinn sem greinist með flogaveiki næst á eftir börnum og ungmennum.
Í aldurshópnum 40 - 59 ára eru 12 af hverjum 100.000 og hjá 60 ára og eldri eru það 82 af hverjum 100.000, sem greinast með flogaveiki.
Í breskum rannsóknum hefur komið fram að 24% allra nýrra tilfella sem greinast með flogaveiki eru eldri en 60 ára. Búist er við að eldra fólki með
flogaveiki komi til með að fjölga á næstu áratugum. Mesta fjölgunin verður í elsta hópnum eða þeim sem eru eldri en 80 ára. Það kemur ekki á óvart þar
sem flest floganna orsakast af æðasjúkdómum í heila sem tengist hækkandi aldri. Jafnframt fjölgar þeim einstaklingum sem lifa af heilablæðingar og
heilablóðtappa vegna betri bráðaþjónustu og endurhæfingar.

Margt gamalt fólk býr eitt og af þeirri ástæðu eru ekki sjónarvottar til staðar sem geta gefið upplýsingar um það sem gerist. Slíkt getur gert alla greiningu erfiðari.
Einnig er erfiðara að greina flog frá öðrum athöfnum sem tengjast ef til vill einhverjum öðrum einkennum.

Hjá eldra fólki er oft auðveldara að hafa stjórn á flogum, það bregst betur við lyfjameðferð og þarf stundum minni lyfjaskammta en þeir sem yngri eru.

Að greinast með flogaveiki á efri árum hefur ef til vill ekki mikil áhrif á atvinnu og menntun líkt og það hefur oft hjá yngra fólki. Áhrifin eru oft meiri á samskipti og tengsl fólks sem eru mjög mikilvægir þættir. Eldra fólk getur verið háðara því að komast á milli á bílum sínum og ef sá sem fær flog er sá aðili sem er með ökuréttindi getur missir þeirra réttinda þýtt að tveir einstaklingar verða bundnir heima.